October 26, 2020

einhver af orðunum sem ég fann í síðustu viku. 
stundum nokkur, stundum fleiri en alltaf einhver. 
 
 


þú kenndir mér
að stelpur eru minna virði
en strákar
að kyn mitt kæmi í veg fyrir
að ég fengi rafmagnshlaupahjól
sem komst á 10km/klst hraða
eins og bræður mínir
þú kenndir mér að konur
ættu að vera fitulausar
eins og innpakkaðar
kjúklingabringur
í bónus
að ef einhver flötur væri
klípanlegur á kvenholdi
þá væri virði hennar
ekki neitt og henni ætti að henda
samstundis, eða allavega
á innan við sólarhring

þú kenndir mér að ég
væri feit
og sama hvað internetið
sagði mér oft
að ég væri langt undir meðalþyngd
miðað við 173 sentimetra hæðina
að þá vógu orðin þín
þyngra

þú kenndir mér
að ekkert magn af
merkjavöru klæðnaði
og glingri gæti gert mig
nógu fína fyrir
fjölskylduna þína
eða fjölskylduna
mína
sem þetta er víst
því ég fékk að velja
átta ára gömul
hvort ég vildi eiga hana
eða tapa henni
og auðvitað
valdi ég hana
ég valdi
bíóferðir og barnabox á
mcdonald’s
ég valdi lukkupakka
í kolaportinu og heimabökuðu
brúnu kökuna
hjá ömmu láru
því í hvaða heimi
velur barn að
missa það?


// það sem þú kenndir mér, eða brot af því  

hlakka til að deila með þér fleiri orðum í næstu viku.

 Also in orð vikunnar

orð vikunnar // 15.-21.feb
orð vikunnar // 15.-21.feb

February 22, 2021

orð vikunnar // 8.-14.feb
orð vikunnar // 8.-14.feb

February 15, 2021

orð vikunnar // 1.-7.feb
orð vikunnar // 1.-7.feb

February 08, 2021